Dyspraxia
Klaufska -
Verkstol -  Verkblinda - Skipulagsblinda

Sumir lesblindir einstaklingar þjást af sérstakri gerð af þrálátri klaufsku sem á íslensku kallast verkstol (dyspraxia). Verkstol er ekki alltaf fylgifiskur lesblindu vegna þess að það  hefur ekki bein áhrif á lestur, skrift, stafsetningu eða stærðfræði. Verkstol er einn af fjölmörgum flötum á náðargáfunni lesblindu.

Bjöguð skynjun rót vandans

Ekki er ólíklegt að hugtakið "hrakfallabálkur" og setningar eins og: "Hann getur ekki gengið og tuggið tyggjó samtímis" hafi verið notaðar til þess að lýsa alvarlegum tilvikum af verkstoli. Sér gert ráð fyrir að bjöguð skynjun sé rót vandans er auðvelt að skilja verkstol.

Jafnvægis- og hreyfiskyn bjagað

Tvær orsakir eru fyrir verkstoli. Í fyrsta lagi er jafnvægis- og hreyfiskyn bjagað vegna skynvillu. Þetta liggur í augum uppi þar sem skynvilla getur valdið svimatilfinningu. Aftur á móti getur skynbjögun einnig átt sér stað þótt einstaklingurinn sé ekki skynvilltur. Það stafar af því að sú staðsetning hugaraugans, sem hann hefur notað, er ekki kjörstaðsetning. Jafnvel þegar skynjanir hætta að bjagast og verða samfelldar um tíma eru þær ekki réttar.

Til að skilja þetta betur er rétt að íhuga tvo grundvallareiginleika bestu skynstillingar (kjörstillingar):
                               
                    Stöðuga skynjun
                    Raunskynjun

Séum við með stöðuga skynjun getum við lært að lesa, skrifa, stafa rétt og reikna jafnvel þótt við séum ekki með raunskynjun. Flestir, sem ekki eru lesblindir, hafa stöðuga skynjun vegna þess að þeir eru stöðugt skynstilltir. Lesblindir hafa aftur á móti ekki stöðuga skynstillingu.

Fyrir allar skynjanir aðrar en jafnvægis- og hreyfiskyn mun smávægileg ónákvæmni ekki skerða að ráði getu einstaklings til að lesa, skrifa, tala eða hlusta. Sá sem er laglaus verður aldrei söngvari, en getur haldið uppi samræmum án vandkvæða. Sá sem er litblindur málar ekki rétta liti, en fer létt með að lesa tímarit.

Bjögun í jafnvægis- og hreyfiskyni mun hins vegar alltaf valda klaufsku að einhverju leyti. Helstu jafnvægis- og hreyfiskynfæri okkar eru í fordyri inneyrans. Þessi skynfæri kallast posti og skjóða og eru himnusekkir fylltir vökva og innihalda hreyfiskynhár sem virka líkt og hallamál.

Þyngdarkrafturinn og umhverfið stjórna jafnvægis- og hreyfiskyni. Lesblindir, sem ekki hafa farið í leiðréttingarmeðferð og eru að auki haldnir verkstoli, hafa bjagað jafnvægis- og hreyfiskyn, jafnvel þótt þeir séu ekki skynvilltir. Þótt skynjun þeirra sé stöðug þá er hún bjöguð og veldur einstaklingnum rangri skynjun á hinum áþreifanlega heimi og kemur það fram í líkamshreyfingum hans.

Verkstol er skiljanlegt vegna þess að ef jafnvægis- og hreyfiskyn bjagast tímabundið eða er af meðfæddum orsökum ónákvæmt má gera ráð fyrir klaufsku eða klunnalegri hegðun.

Allir lesblindir finna endrum og eins fyrir verkstolseinkennum vegna skynvillu. Aðeins 10 - 15% lesblindra barna búa þó við þrálátt verkstol. Eins og aðrar hliðar lesblindu er verkstolið misalvarlegt.

Þrálát klaufska vegna ónákvæmrar skynjunar er lagfærð með fínstilliæfingum. Klaufskan, sem skynvillan veldur, hverfur smám saman jafnhliða því sem lesblindan sjálf er leiðrétt með meistrun lesmálstákna.

Aðalsíða

 

Heimild: Náðargáfa lesblindunnar, 2004